Suður
Quinson: (10 km fjarlægð) Smáþorp – lítið stærra en Esparron og státar að minnsta kosti af tveimur eðalsteinum, annars vegar hinu stórkostlega „Safni Mannssins“ og hins vegar einum besta veitingastað ( og ódýrasta) á svæðinu.
„Safn Mannsins“ var álíka átak fyrir þetta litla þorp og „Harpa“ var Íslendingum og ein helsta driffjöður þess að gera það að raunveruleika var sú ágæta kona sem stendur fyrir rekstri veitingastaðarins. Safnið var opnað fyrir um 10 árum og er reist í kringum þær mannvistarleifar, tugþúsund ára gamlar, sem hér hafa fundist í hellum í gljúfrum Verdon árinnar. Það er reist eftir uppdráttum enska arkitektsins Sir Norman Fosters sem m.a. er höfundur Loyds turnsins fræga í London. Peningar voru að mestu fengnir úr sjóðum Evrópubandalagsins, en safnið hefur verið feikivel sótt allt frá opnun. Þar sjáum við m.a. aðeins inn í forna veröld forfeðra Frakka og innlit í daglegt líf þeirra m.a. að stunda eftirlætisiðju sína þ.e. samlíf kynjanna. Þar er m.a. endurgerð hellisins sem minnst var á í kaflanum um gljúfrin við Esparron. Ég hef farið með nokkra íslenska gesti þangað og hafa þeir allir verið ánægðir með safnið.
Veitingastaðurinn sem er nánast við hliðina á safninu heitir „Relais de Notre Dame“ ( Setur vorrar frúar) og er hefðbundinn franskur veitingastaður með hefðbundinn mat svæðisins, hvíta dúka og silfurborðbúnað. Þar má mæla með öllu sem á boðstólum er ekki síst villisvíninu „Daube Sanglier“ og rauðvínið „Les Demosielles de Venise“ (17 evrur) svíkur ekki! Patróninn sem áður er minnst á er stórvaxin kona um sextugt, stórskorin í andliti en hláturmild og vel yfir 1,8o m á hæð og afar ræðin við þá sem hún þekkir eins og konu mína. Hún er þó stutt m.v. veitingakonuna á „Hvítu Eikinni“ rétt fyrir utan Sillans sem er 2,10 á hæð.
Í norður frá Esparron
Greoux les Bains (13 km), er fallegt þorp með mikilli blómadýrð ætíð fullt af kúristum“ sem er fólk sem kemur á kostnað franskra sjúkratrygginga til þess að njóta heilsubaða sem má rekja til náttúrulegra heilsulinda sem þar eru. Rómverjar uppgötvuð böðin og komu þar á heilsuböðum fyrir meir en tvö þúsund árum. Nútíminn hefur svo bætt við spilavíti svo fólk geti misst heilsuna á einfaldan hátt aftur. Töluvert er haldið af tónleikum þar og gott kvikmyndahús er nýbyggt sem sýnir nýjustu myndir og jafnvel stundum óperur á bíó eins og sýnt er á Íslandi á stundum. Nokkrir góðir veitingastaðir eru í Greoux og má mæla með la Tavern. Í Greoux er einnig Rotary klúbbur sem er tvítyngdur þ.e. franska og enska eru bæði gild. Klúbburinn er fámennur en góðmennur og flestir tala fleiri tungumál en þessi tvö því að kjarni hans er gáfumannahópur sem vinnur hjá ITER, sem síðar verður gerð grein fyrir. Þeir hittast öll þriðjudagskvöld og ef þú ert í Rotary ættirðu að skella þér á fund.
Manosque (25 km)er stærsti bærinn í efra Provence en þar er samt ekki stjórnarsetur svæðisins, sem er staðsett í Digne les Bains. Manosque er nútímalegur bær og virkisstöð frá fornu fari og er gamli bærinn innan virkismúranna, sem nú eru að mestu horfnir, en borgarhliðið gamla markar enn upphaf helstu verslunargötunnar Rue Grande. Einn mikilsvirtur rithöfundur Jean Giono starfaði og bjó allt sitt líf í Manosque. (1895-1970). Hann var ákafur friðarsinni og fangelsaður eftir seinni heimstyrjöldina vegna meints samstarf við Þjóðverja, sem ekkert reyndist svo satt í og var leystur úr haldi eftir nokkur ár. Fyrir svæðið hér má nokkuð líkja honum við Halldór Laxness Íslendinga að því leyti að hann ber höfuð og herðar yfir aðra rithöfunda svæðisins. Hann hefur lítt verið þýddur á íslensku enda mjög vandþýddur því bækur hans eru mjög skotnar provensölsku og hefur mér reynst um megn að snara honum á íslensku. Hann lýsir vel veruleika provensala amk. eins og hann var á fyrri hluta síðustu aldar, fullur af ástríðum og sól. Gianosafn er vel heimsóknar virði í Manosque og það er einnig listasafnið Carzou sem var frábær málari og enn er á lífi. Menningarlíf er því talsvert og dagar bókarinnar árvissur viðburður á haustin. Til Manosque sækjum við bankaþjónustu, súpermarkaði, heilbrigðisþjónustu og annað sem einkennir nútímalíf. Mikið er af fólki af arabískum uppruna og setja þeir ákveðinn svip á bæjarlífið.
Volx er stórt þorp 5 km í norður frá Manosque og þar hafa Frímúrarar hreiðrað um sig í gamalli járnbrautarstöð eins og raunar víðar í Frakklandi. Þar hittast nánast á hverju kvöldi einhverjar stúkur frímúrara af ýmsum ritúölum og eru allir reglubræður og systur velkomnar með ákveðnum takmörkunum þó. Þar borðar þú ódýrar en víðast annars staðar því að þríréttuð bróðurmáltíð framreidd og tilhöfð af bræðrunum kostar með víni innan við 1000 krónur.
Salagon er gamall klausturstaður með merkar minjar. Þar eru merkilegir garðar eins og tíðkuðust í klaustrum á miðöldum og ræktaður mikill fjöldi lækningajurta sem sýnir manni ljóslega rætur lyfjafræðinnar. Þar eru einnig gamlar kristnar grafir undir gleri frá fjórðu öld og kom mér alla vega á óvart að kristni skyldi hafa breiðst svo fljótt út. Auk þess er þar merkt safn fornra atvinnuhátta og kirkjan er bæði fögur og einkennilega friðsæl. Þetta er afar aðlaðandi staður rétt utan við hið áhugaverða þorp Forqualqier (þar sem oft eru áhugaverðir jasstónleikar) um 10 km frá Manosque.
Ganagobie er nafn á hásléttu á leiðinni til Sisteron um 15 km norðan Manosque. Það er ævaforn sjávarbotn og sjálfur hef ég fundið hákarlatennur en þær eyðast ekki með tímans tönn í mölinni þar. Er mér sagt að þær séu amk. fimm milljón ára gamlar! Auk göldrótts svartmunkaklausturs sem okkur tókst ekki að mynda í okkar fyrstu heimsókn því myndavélin stóð alltaf á sér en var svo í fullkomnu lagi þegar við fórum út úr klaustrinu, en þar áttum við ánægjulegar samræður við einn munkanna, sem blandaði geði við almenning og hlýddum á messu í fagurri kirkjunni. Um 1 km fjær klaustrinu í enda sléttunnar eru furðulegar forsögulegar minjar sem ekki er mikið vitað um en þar eru úthöggnir andapollar og aldeilis furðulegar rústir frá því áður en sögur hófust. Munkunum er lítið gefið um þessar minjar og vilja ekkert ræða þær. Frá náttúrunnar hendi er þarna feikilega víðsýnt og ógleymanlegur staður.
La Rotonde er nafn á hringbyggingu rétt utan við þorpið Simiane la Rotonde einnig stutt frá Forqualquier. Engar heimildir eru kunnar almenningi um hvers vegna þessi volduga bygging var byggð í lok elleftu aldar og lítt er þekkt að á jafndægri vor og haust skín sólin inn um langan þakglugga einmitt á altari byggingarinnar nákvæmlega eins og í Abu Simpel musterinu í Namibíu fyrir ofan Nasser stífluna við Assam. Þeim sem pæla í sögu leynireglna finnst þessi bygging áhugaverð í meira lagi.
Suð-vestur
Vinon sur Verdon (35 km) Cadarache er staðsettnokkru sunnan við þorpið Vinon,sem hér verður ekki gert að umræðuefni. Þar er þó ágætur markaður á sunnudögum og einu sinni keypti ég buxur á einhvern mesta fiðlusnilling sem mig hefur sótt heim. Hann kom með lestinni frá París á sunnudagsmorgni með fiðluna eina í hendinni og hafði þá lent í ástaræfintýri og bjargað sér út um glugga þegar að eiginmaðurinn hafði komið heim í morgunsárið. Þessi ágæti snillingur var einn af þremur sem mynda Beaux Arts tríóið sem er eitt besta píanótríó í heimi hér og dýrustu kraftar sem ég leyfði mér að bjóða upp á á tónlistarhátíðum okkar. Hann og Olivier Manury eiginmaður Eddu Erlends og Bandoneon snillingur spiluðu svo fyrir okkur alla nóttina eftir konsert þeirra og bætti það vel upp buxna- og skyrtukaupin.
Við héldum fyrsta árið að Cadarache hlyti að
vera öryggisfangelsi vegna þrefaldrar gaddavírsgirðingar með háspennurafmagni
og hundum auk gæslu hermanna. Nei þetta
er ein mesta kjarnorkurannsóknarstöð í heimi með eigi færri en 21 kjarnaofn og
öllu sem því tilheyrir á vendilega afgirtu 1500 hektara svæði þar sem villisvín
og dádýr spásséra friðuð milli kjarnaofna!. Þar vinna um 4.500 manns (kona mín
ein þeirra) í alls kyns rannsóknarsetrum og hefur rannsóknarstöðin verið
starfrækt síðan De Gaulle opnaði hana 1959 eða nær sextíu ár. Einu sinni á ári
er almenningi veitt innsýn í vinnu þá sem þarna fer fram og er það vissulega
áhugavert.
Heldur
opnari er ITER, sem er næsti bær við og hýsir stærstu orkutilraunastöð
stórveldanna: Það er sameiginlegt verkefni helstu iðnríkja heims. Þar eru
eðlisfræðingar að reyna að finna lausn á orkuvandamáli mannskepnunnar með
agnasamruna eins og á sér stað á sólinni. Upphaflega ætluðu þeir að koma á
köldum samruna, en nú er unnið að því að ná þeim svokallaða sólskinshita sem
mun vera einhverjar 10 milljón gráður. Þar
fara fram stórkostlegar byggingarframkvæmdir og vinna við þær um 1500 manns en
rannsóknarstöðin er heldur fámennari. Þeir hafa opið hús nokkrum sinnum á ári
og búast við raunhæfum árangri eftir 15-20 ár eða jafnvel fyrr. Fyrir þá
sem eitthvað skilja í þessum eðlu vísindum læt ég hér fylgja klausu á ensku úr
nýlegu fréttabréfi:” One of the most notable nuclear installations at Cadarache
is the ITER experimental nuclear
fusion tokamak, which is
expected to be completed by 2020. When it becomes operational in the
mid-to-late 2020s, ITER is hoped to be the first large-scale fusion reactor to
produce more energy than is used to initiate its fusion reactions
Það er augljóst að þessar tvær rannsóknarstöðvar eru
mikilvægar efnahagslífi svæðisins.
Aix en Provence (70 km) er rík og borgaraleg borg þar sem
hátt í hundrað þúsund stúdentar stunda háskólanám. Þangað fer maður til að anda
að sér borgarlofti borða góðan hádegismat og fara á bíó. Mæla má með fjölmörgum
veitingastöðum en uppáhald okkar hefur löngum verið Leopold sem er rétt neðan
við Rotonde torgið með gosbrunninum sem státar listagyðjunum þremur. Leopold
opnaði 1930 og er í „art nouvou stíl“ afar borgaralegur og lítið af túristum en
alltaf fullsetinn svo nauðsynlegt er að panta borð. Í Aix eru einnig tvö
kvikmyndahús, sem sýna nýjustu kvikmyndir á frummálinu og hef ég þar séð ýmsar
íslenskar kvikmyndir.
Marseille (25 km frá Aix) er gömul stórborg og hafnarborg með mikla og langa sögu. 2015 var hún menningarborg Evrópu og var þá reist gífurlegt mennningarhús eftir uppdráttum ítalsks arkitekts nálægt gömlu höfninni. Það er fyllilega heimsóknar virði. Fyrir þá sem áhuga hafa á fótbolta er fótboltaleikvangurinn bæði nýbyggður og stórkostlegt mannvirki. Marseille er eitt besta lið Frakklands. Ég fór þangað ásamt fjölskyldu að fylgjast með leik Íslands og Ungverja s.l. sumar og var það sterk upplifun. Hafi maður efast um að fótbolti væri tilfinningaþrungin íþrótt komst maður að hinu sanna á þessum leik. Við höfðum einhverra hluta vegna verið sett inní miðjan hóp Ungverja og í seinni hálfleik þegar Ísland var yfir og vonir Ungverja að verða að engu að komast áfram voru sessunautar okkar allir á barmi taugaáfalls. Þegar íslenska liðið slysaðist síðan til að skora sjálfsmark ætlaði allt af göflum að ganga og þeir föðmuðu okkur eins og bestu vini af slíkri tilfinningu að ég var lengi aumur á eftir. Það má sannarlega mæla með ferð á völlinn!
Avignion (100 km) er gamla páfaborgin með sína frægu
kirkju en páfar höfðu þar aðsetur þegar þeir yfirgáfu Róm í rúm hundrað ár á
15. öld. Hún er vissulega heimsóknar virði en ekki er síður áhugavert að sækja
heim nokkra af þeim fjölda sveitabæja í nágrenninu, sem rækta hin rómuðu
Chateau Neuf de Papes vín. Þangað fórum við einu sinni í pílagrímsferð með
íslenskum vinum sem birgðu sig upp af þessum eðalvínum og létu senda sér. Veit
ég að þeir geyma enn ófáar flöskur úr þessari ferð.
Gefist tími til eru Uzes og St. Remy litrík þorp í
nágrenninu þar sem gott er að borða og anda að sér próvensölskum ilmi.
Austur og suð-austur frá Esparron
St. Croix er yndislegt lítið gamalt þorp í um 20 km
fjarlægð frá Esparron. Það stendur í brattri hlíð við St.Croix vatnið, sem
einnig er uppistöðulón frönsku Landsvirkjunarinnar. Útsýni er ægifagurt og þar
eru tveir ágætir veitingastaðir annar raunar framúrskarandi. Það þarf þó að
gæta að sér að hætta sér ekki út á hálan ís í vali á réttum. Slíkt henti vini
okkar sem buðu okkur þangað út að borða fyrir nokkrum árum og Nathalie spurði
þau hvort þau hefðu ekki smakkað kanínusteik, sem er afar góð vel elduð. Þau
létu freistast en eitthvað leist þeim ekki nógu vel á réttinn því vinur minn
sem er afbragðs hagyrðingur kastaði fram þessari vísu:
Yfir matnum engar flækjur/eða döpur lund
Ármann snæðir risarækjur/restin étur hund
Riez er markaðsbær og þar er gömul dómkirkja þar sem við
létum m.a. frumflytja nýtt íslenskt verk fyrir strengjakvartett eftir Guðmund
Magnússon (son Megasar) og var hann og kona hans sá frábæri sellóleikari
Bryndís Halla Gylfadóttir viðstödd árið 2003. Í Riez er haldinn markaður
miðvikudags og laugardagsmorgna og er hann fjölsóttur og skemmtilegur. Ég giska
á að þar séu á annað hundrað söluaðilar samankomnir fyrst og fremst með
framleiðslu sveitanna í kring af mat og listiðnaði en einnig tuskur og alt
mögulegt frá Kína og Afríku. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég fór með
okkar ástkæru söngkonu Diddú á markaðinn árið 2004. Hún talar ekki frönsku en
talaði og brosti af sinni einstöku lífsgleði ítölsku (sem Frakkar skilja
almennt alls ekki) og vann hug og hjörtu allra. Síðan hélt hún með Jónasi
Ingimundarsyni bravúr konsert í hallargarðinum í Allemagne sem var mjög fjölsóttur
og tókst frábærlega eins og þeirra var von og vísa.
Moustiers St. Marie er eitt fegursta þorp Frakklands
frábærlega staðsett við rætur fjallanna sem mynda gljúfrin Gorges de Verdon.
Það er einkum rómað fyrir postulínframleiðslu sína og er eins gott að gæta að
sér þegar postulínsbúðir eru heimsóttar. Eitt sinn man ég að amrískur túristi
varð fyrir því óláni að reka sig í yfirhlaðið borð og brjóta það sem þar var á
og varð hann að borga stóra upphæð í bætur, sem hann gerði raunar með bros á
vör. Þar eru ágætir veitingastaðir og gott að fá sér í gogginn áður eða eftir
að gljúfrin eru heimsótt. Lítil kapella er nokkru fyrir ofan þorpið og hafa
nokkrir af mínum vinum lagt það á sig eins og ég gerði fyrir hartnær 40 árum
þegar ég bar stelpurnar mínar á bakinu litlar þangað upp. Það er erfiðisins
virði! Í þorpinu er einnig einkar fögur kirkja byggð í mörgum áföngum frá
11.öld fram á þá 16. Þar héldu íslenskir tónlistarmenn minnsverða en fremur
fásótta tónleika árið 2003 og ég rétt forðaði mér frá því að lenda í fangelsi
fyrir að hafa hengt upp plaköt um tónleikana þar sem það mátti ekki.
Gorges de Verdon
eru stærstu gljúfur í heimi á eftir Grand Canyon í Bandaríkjunum og eru
svona eins og Gullfoss á Íslandi þ.e. skylduheimsókn og menn sjá ekki eftir
henni. Mér hefur reynst nóg að fara tiltölulega stutt upp í gljúfrin að stað
sem heitir Belleverde og fá sér göngutúr þaðan eftir gljúfrabarminum. Gott er
að vera vel búinn til fóta því að klappirnar eru hálar! Svo má að sjálfsögðu
aka allan hringinn en það tekur eina 4 tíma. Einnig er skemmtilegt að taka sér
kanó eða hjólabát og róa úr mynni Verdon árinnar uppí gljúfrin. Lítið þorp á
fjallsbrún sem heitir St. Aguil er skemmtilegt að heimsækja. Þar fékk
blásarakvintett Reykjavíkur sér pönnukökur sem næstum jöfnuðust á við mínar í
Brekkukoti (en svo nefni ég hús mitt í Esparron). Þar svífa ernir jafnan í
uppstreymi fjallsins og eru tignarlegir á að líta.
Ég ákvað að hafa þessa frásögn ekki lengri en 10 síður og
nú er ég kominn á tíundu síðu. Ég mun því aðeins geta um nokkra fleiri staði í
örstuttu máli.
Suður í átt að Cote Azur eru þorpin Sillans les Cascades (góður veitingastaður), Salernes (keramík), Tour Tour (frábært útsýni), Cotigniac (gott vín að birgja sig upp með og hræbillegt auk manngerðra hellna sem fólkið gróf inn í klettana til að verjast árásum Mára), Villecroix (tónlistarakademía þar sem Elly Ameling og Dalton Baldwin hafa kennt ýmsum Íslendingum og þar eru stórkostlegir hellar), Dragugnian (höfuðstaður franska riddaraliðsins og einnig ef vel er leitað björg frá forsögulegum tíma sem svipar til Stonehenge á Englandi), St.Tropez,Ramatuelle,Issimbra eru uppáhalds strandþorp.